Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 1297  —  366. mál.
Leiðrétt tafla.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um nauðungarsölur og greiðsluaðlögun.


     1.      Hversu margar fasteignir einstaklinga voru seldar nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs árin 2008–2017, sundurliðað eftir árum, mánuðum, embættum og umdæmum sýslumanna?
    Óskað var eftir upplýsingum um hversu margar fasteignir í eigu einstaklinga voru seldar nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs árin 2008-2017. Íbúðalánasjóður býr ekki yfir upplýsingum um hversu margar eignir voru seldar að kröfu sjóðsins. Sjóðurinn leysti til sín samtals 2.875 fasteignir á framangreindu níu ára tímabili. Auk þess lýsti sjóðurinn veðkröfu í 630 öðrum nauðungarsölum á tímabilinu þar sem kaupandi var annar en sjóðurinn. Hér á eftir má finna töflu þar sem fram kemur sundurliðun á fjölda fasteigna sem seldar voru nauðungarsölu á árunum 2008–2017 og Íbúðalánasjóður átti veðkröfu í eigninni. Það jafngildir því hins vegar ekki að viðkomandi eign hafi verið seld að kröfu sjóðsins en líkt og áður segir liggja ekki fyrir upplýsingar um slík tilvik.

Sýslumannsembætti 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 Samtals
Austurland 8 6 11 17 14 22 18 29 6 5 136
Höfuðborgarsvæðið 38 46 202 110 185 243 78 136 105 26 1169
Norðurland eystra 22 22 40 14 33 55 29 38 20 15 288
Norðurland vestra 3 3 5 3 7 6 8 6 2 4 47
Suðurland 24 28 76 37 41 82 17 63 30 24 422
Suðurnes 36 59 165 135 156 219 93 58 51 18 990
Vestfirðir 14 19 21 6 15 20 16 22 20 7 160
Vestmannaeyjar 2 6 8 5 7 10 4 4 7 3 56
Vesturland 4 14 29 26 31 57 23 30 18 5 237
Samtals 151 203 557 353 489 714 286 386 259 107 3505

     2.      Hversu margir einstaklingar leituðu tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði árin 2008–2017, í hversu mörgum þeirra tilfella hefur slík greiðsluaðlögun komist á og í hversu mörgum þeirra tilfella hefur fasteign í eigu skuldara verið seld eða ráðstafað til kröfuhafa, sundurliðað eftir árum, mánuðum, dómstólum og umdæmum þeirra?
    Ráðuneytið býr ekki yfir tölulegum upplýsingum um það hversu margir einstaklingar hafa leitað tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði samkvæmt lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, með síðari breytingum, þar sem að slíkum beiðnum er beint til héraðsdómstóla.
    Í tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðskrafna á grundvelli laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, með síðari breytingum, felst að skuldbindingar skuldarans breytast á þann hátt að aðeins verða gjaldkræfar greiðslur sem honum telst fært að standa straum af en gjalddaga þess hluta skuldbindinganna sem standa eftir er frestað svo lengi sem greiðsluaðlögun stendur. Úrræðið felur því í sér að eigandi íbúðarhúsnæðis heldur húsnæði sínu á meðan úrræðið stendur yfir og kemur því ekki til þess það sé selt eða því ráðstafað til kröfuhafa.

     3.      Hversu margir einstaklingar leituðu greiðsluaðlögunar einstaklinga árin 2008–2017, í hversu mörgum þeirra tilfella hafa náðst samningar um greiðsluaðlögun og í hversu mörgum þeirra tilfella hefur fasteign í eigu skuldara verið seld eða ráðstafað til kröfuhafa, sundurliðað eins og unnt er eftir árum, mánuðum, lánveitendum og landsvæðum?
    Lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, með síðari breytingum, tóku gildi 1. ágúst 2010. Frá gildistöku laganna til loka árs 2017 bárust alls 7.170 umsóknir um greiðsluaðlögun einstaklinga og komust á samningar í 3.238 tilvikum. Á tímabilinu var fasteign í eigu skuldara seld kröfuhafa í 349 málum. Í eftirfarandi töflu má sjá fyrrgreindar upplýsingar sundurliðaðar eftir árum, mánuðum og landsvæðum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um sundurliðun eftir lánveitendum.

     4.      Í hversu mörgum tilfellum hafa skuldarar sótt um greiðsluaðlögun einstaklinga en ekki náð samningi um hana, í hversu mörgum þeirra tilfella hefur það leitt til umleitana um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, í hversu mörgum þeirra tilfella hefur slík greiðsluaðlögun komist á og í hversu mörgum þeirra tilfella hefur fasteign í eigu skuldara verið seld eða ráðstafað til kröfuhafa, sundurliðað eins og unnt er eftir árum, mánuðum, lánveitendum og landsvæðum?
    Líkt og fram kom í svari við 3. tölulið bárust alls 7.170 umsóknir um greiðsluaðlögun einstaklinga frá gildistöku laganna til loka árs 2017. Þar af náðust ekki samningar um greiðsluaðlögun í 846 tilvikum. Fjöldi umleitanna um nauðasamninga var 85 á umræddu tímabili og var nauðasamningur samþykktur í 63 tilvikum. Í slíkum tilvikum hefur fasteign í eigu skuldara aldrei verið seld eða henni ráðstafað til kröfuhafa. Í eftirfarandi töflu má sjá fyrrgreindar upplýsingar sundurliðaðar eftir árum, mánuðum og landshlutum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um sundurliðun eftir lánveitendum.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti umboðsmanns skuldara hafa frá stofnun embættisins aðeins örfáir einstaklingar leitað tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009 eftir að samningsviðræður í greiðsluaðlögun báru ekki árangur. Umboðsmaður skuldara býr þó ekki yfir upplýsingum um þá sem hafa leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 50/2009 með beiðni til héraðsdómstóls án aðkomu embættisins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.